Innlent

Rændur, laminn og stunginn með skrúfjárni í Kaupmannahöfn

Valur Grettisson skrifar
Ási Heimisson lætur ekki hnífstungu aftra sér frá því að fara til Svíþjóðar.
Ási Heimisson lætur ekki hnífstungu aftra sér frá því að fara til Svíþjóðar.

„Ég var á leiðinni heim úr afmælispartýi hjá vini mínum og vantaði ekki nema um það bil 300 metra upp á að vera kominn heim," segir hinn 28 ára gamli Ási Heimisson sem var rændur og stunginn í lærið með skrúfjárni þegar hann var á gangi á Rantzausgade í Nörrebro í Danmörku á laugardaginn.

Danska lögreglan sagði í þarlendum fjölmiðlum að ránið hefði verið óvanalega hrottalegt. Ási var dreginn gegn sínum vilja inná stigagang þar sem honum var misþyrmt og að lokum stunginn.

„Ég var að ganga framhjá Aldi, sem er kjörbúð, þegar ég mætti þremur ungum strákum af arabískum uppruna. Ég ætlaði að ganga fram hjá þeim en var svo allt í einu dreginn inná stigagang. Mér var svo hent niður í jörðina og að lokum barinn í andlitið," lýsir Ási sem er vel kunnugur Kaupmannahöfn en sjálfur hefur hann búið í borginni í sex og hálft ár.

Lögreglan í Danmörku sagði árásina einkar hrottafengna.

Hann lýsir hrottafengnu ráninu þannig að hann hafi haldið dauðahaldi utan um hliðartösku sem hann var með á sér. Í henni var farsími, myndvél og veski.

„Þeir vildu semsagt að ég léti þá fá pening, sem ég ekki var með á mér," segir Ási um hina hræðilegu lífsreynslu en einn árásamannanna dró upp skrúfjárnið og skar á töskuólina. Svo virðist sem hann hafi í kjölfarið stungið Ása í lærið en hann áttaði sig ekki strax á því að hann hefði verið stunginn.

„Ég tók fyrst eftir því að mér blæddi mjög úr fætinum þegar ég gekk út á götuna. Og þar leið semsagt yfir mig," segir Ási sem má þakka sínu sæla fyrir að ekki hafi farið verr.

Atburðarásin var hröð. Sjálfur segist Ási ekki skilja hversvegna þeir þurftu að stinga hann í lærið enda þrír á móti einum.

Spurður hvort hann telji sig hafa verið í lífshættu svarar hann yfirvegaður: „Maður var í hættu náttúrulega en aldrei í lífshættu held ég."

En ein hugsun sækir þó að Ása: „Ég get þó ekki látið vera að hugsa að hvað ef þeir hefðu stungið mig hærra...?"

Ási var ekki búinn að heyra í lögreglunni varðandi rannsóknina. Sjálfur var hann ekki bjartsýnn á að árásarmennirnir myndu finnast.

Ási er núna staddur í Svíþjóð með vinum sínum þrátt fyrir að hann hafi verið stunginn á laugardaginn.

„Ég læt ekki stungusár aftra mér frá því að fara til Svíþjóðar," segir Ási og lætur engan bilbug á sér finna. Hann segist hafa verið bólgin fyrstu dagana, nú sé hann allur að braggast.

Ási var þegar búinn að fara aftur á glæpavettvanginn á Rantzausgade og kanna vegsummerki og um leið gera upp við árásina sem telst heldur fautaleg. Það virðist hafa hjálpað þó nokkuð.

„Ég held að lexían sem ég hafi lært sé að taka alltaf leigubíl heim ef maður getur ekki hjólað," segir Ási að lokum.


Tengdar fréttir

Íslendingur stunginn í Kaupmannahöfn

Tæplega þrítugur Íslendingur var stunginn með hníf og rændur við Rantzausgade á Norðurbrú í Kaupmannahöfn síðustu nótt. Maðurinn var stunginn í tvígang í lærið og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Hann er ekki í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×