Innlent

Fellum samningana og gerum nýja

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Sigmundur Davíð Mynd/GVA
Sigmundur Davíð Mynd/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir framgöngu sína í Icesave málinu við upphaf þingfundar í morgun. Hann sagði fyrirvara í málinu styrkja stöðu Íslands, en lagði þó til að frumvarpið um ríkisábyrgð yrði fellt og nýr samningur gerður.

Sigmundur var þriðji flokksformaðurinn til að ávarpa Alþingi, en allir fá þeir um tíu mínútna ræðutíma áður en atkvæðagreiðsla um Icesave frumvarpið hefst.

Hann sakaði ríkisstjórnarflokkana um að hafa keyrt Icesave málið í gegnum þingið af of miklum ákafa og það gæfist ekki nægilegt svigrúm til að fara yfir ábendingar sem komið hefðu fram. Þá gagnrýndi hann að enginn með menntun í enskum lögum hefði lesið yfir samningana. Hann minntist þess einnig að upphaflega hafi staðið til að þingheimur fengi ekki að sjá samningana.

Sigmundur sagði að risavaxnar tölur eins og í Icesave samningunum myndu hafa áhrif á samfélagið. Til dæmis jafngiltu þrettán klukkustunda vextir þeim niðurskurði sem nú væri að setja lögregluna á annan endann.

Þá gagnrýndi Sigmundur einnig hugarfarsþróun sem hann kallaði hættulega; þegar dyggðum er snúið á hvolf og menn reyni að endurheimta traust með því að viðurkenna sakir umfram það sem efni standa til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×