Enski boltinn

Wenger: Verðum betri og betri með hverjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var ánægður með Andrey Arshavin í dag.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var ánægður með Andrey Arshavin í dag. Mynd/AFP

„Við erum alltaf að verða betri og betri með hverjum leik. Við hefðum getað skorað miklu fleiri mörk í dag," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, eftir 4-0 sigur liðsins á Blakcburn í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Eg held að sigurinn á móti Roma í Meistaradeildinni hafi létt ákveðni pressu af liðinu. Leikmennirnir mínir voru búnir að bíða lengi eftir að klára þann leik. Við spiluðum miklu frjálsari bolta í dag og leikurinn okkar er að koma til baka," sagði Wenger.

„Liðið er tilbúið í lokasprettinn og við ætlum að berjast á öllum þremur vígstöðum," sagði Wenger en Arsenal er komið í 8 liða úrslit Meistaradeildarinnar og inn í undanúrslitaleikinn í enska bikarnum.

Wenger var ánægður með Andrey Arshavin í leiknum. „Hann hefur mikla hæfileika. Hann er klókur, hefur mikla yfirsýning og getur klárað færin," sagði Wenger um Rússann snjalla sem opnaði markareikninginn sinn hjá Arsenal í dag.

Wenger vildi líka hrósa Frakkanum Nasri fyrir góðan leik og þá vildi hann ekki ganrýna Nicklas Bendtner þrátt fyrir að Daninn hafi kúðrað hverju tækifærinu á fætur öðru í þessum leik.

„Hann lagði mikið til liðsins og spilaði vel þótt að hann hafi klárað færin sín illa. Fólk gleymir alltaf að hann er aðeins tvítugur og það var rangt að púa á hann," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×