Innlent

Höskuldur: Fórum ekki fýluferð til Noregs

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir sig og formann flokksins ekki hafa farið í fýluferð til Noregs til að liðka um fyrir risaláni til Íslands. Þvert á móti hafi þeir greint mikinn vilja meðal norskra þingmanna. Höskuldur segir að hafi Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, beðið forsætisráðherra Noregs um að segja ekki stæði til að veita Íslendingum slíkt lán sé um skemmdarverk að ræða.

Íslendingar fá ekki lán frá Noregi umfram það sem nú þegar hefur verið samið um. Þetta kemur fram í norska blaðinu ABC Nyheter. Þar segir ennfremur að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi sent Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, bréf á mánudag og spurt út í fullyrðingar forystumanna Framsóknarflokksins um að Íslendingum standi til boða allt að 2000 milljarða króna risalán frá Noregi. Slíkt mun ekki vera í boði samkvæmt svari norska forsætisráðherrans.

„Við heyrðum að Jóhanna hefði sent Stoltenberg tölvupóst um að þessi ferð okkar væri að valda henni vandræðum á Íslandi. Hún bað hann þess vegna um að segja þetta. Ef það er rétt þá er það ekkert annað en skemmdarverk gagnvart íslensku þjóðinni," segir Höskuldur.

Stoltenberg er formaður Verkamannaflokksins en flokkurinn er systurflokkur Samfylkingarinnar.

Þingmaðurinn segir að sér virðist sem að Samfylkingin vilja ljúka við aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þannig stórskaða hagsmuni þjóðarinnar. Samfylkingin horfi fram hjá því að sjóðurinn sé að misbeita valdi sínu í þágu Breta og Hollendinga.

Höskuldur segir að Noregsferðin hafi verið afar góð og að hann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi rætt við fjölda þingmanna úr öllum flokkum. Allir hafi þeir verið jákvæðir nema þingmenn Verkamannaflokksins.

„Ég er þeirrar skoðunar eftir þessa ferð að ég tel miklar líkur á því Íslendingar fái lán frá Norðmönnum komi formleg beiðni frá Íslandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×