Erlent

Örlagarík myndataka yfir New York

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þetta yfirflug leit ekkert sérstaklega huggulega út í augum margra New York-búa en þarna var verið að ljósmynda forsetavél Bandaríkjanna.
Þetta yfirflug leit ekkert sérstaklega huggulega út í augum margra New York-búa en þarna var verið að ljósmynda forsetavél Bandaríkjanna. MYND/WABC

Talsmenn Hvíta hússins hafa beðist velvirðingar á því sem margir íbúar á Manhattan í New York töldu vera yfirvofandi hryðjuverkaárás þegar þota af gerðinni Boeing 747 flaug lágflug yfir borginni í gær með tvær F-16-orrustuþotur á eftir sér.

Mikil skelfing greip um sig og var þegar tekið til við að rýma byggingar í New York og New Jersey. Þetta reyndist þá vera forsetavélin Air Force One sem verið var að ljósmynda með Frelsisstyttuna í bakgrunni enda fylltust margir skelfingu þegar vélin tók að hringsóla yfir styttunni.

Louis Caldera, yfirmaður hermálaskrifstofu Hvíta hússins, viðurkennir að hafa veitt leyfi fyrir myndatökunni og biðst forláts. Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, er æfur af reiði yfir atvikinu og Chuck Schumer, öldungadeildarþingmaður New York, segir uppátækið hvort tveggja miskunnarlaust og auk þess hreina heimsku.

Barack Obama forseti er einnig sagður frekar óhress með uppákomuna en það skal tekið fram að hann var ekki um borð í vélinni við myndatökuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×