Innlent

Niðurstöðu að vænta í dag

í þjóðmenningarhúsinu í júní Vilhjálmur Egilsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Arnbjörnsson bundu miklar vonir við sáttmálann við undirritun.fréttablaðið/stefán
í þjóðmenningarhúsinu í júní Vilhjálmur Egilsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Arnbjörnsson bundu miklar vonir við sáttmálann við undirritun.fréttablaðið/stefán

Alþýðusambandið (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) ræddu í gær um að segja sig frá stöðugleikasáttmálanum en framlengja engu að síður kjarasamninga sín á milli. Þetta staðfestir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, en segir það aðeins eitt fjölmargra atriða sem eru til skoðunar. Þessi lausn sé ekki líklegri en hver önnur.

Stjórnvöld lögðu fram drög að yfirlýsingu um hádegi í gær. Þar var tíundað hvernig þau eru tilbúin að beita sér svo stöðugleikasáttmálinn haldi. Aðilar vinnumarkaðarins sendu í kjölfarið viðbrögð sín við þeim texta og útfærslu ýmissa hugmynda.

Vilhjálmur segir að í ákveðnum atriðum séu ólíkar áherslur. „Við höfum verið að ræða um skattamálin, fjárfestingar, gjaldeyrishöft og vexti en líka sjávarútvegsmálin. Á flestum þessum sviðum er ennþá verið að togast á um hvað yfirlýsingin á að innihalda.“ Svar hafði ekki borist við tillögum aðila vinnumarkaðarins frá ríkisstjórninni seint í gærkvöldi.

SA heldur stjórnarfund í hádeginu. Þar mun stjórnin taka afstöðu til þess hvort kjarasamningar verða endurnýjaðir eða ekki. Félög innan ASÍ þurfa að gera slíkt hið sama. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×