Innlent

Dóttir Gunnars Birgissonar í meiðyrðamál við bæjarfulltrúa

Frjáls Miðlun ehf., sem er í eigu Guðjóns Gísla Guðmundssonar og Brynhildar Gunnarsdóttur, dóttur Gunnars Birgissonar, fyrrum bæjarstjóra Kópavogs, hefur stefnt þremur bæjarfulltrúum í Kópavogi fyrir meiðyrði. Alls krefjast hjónin auk Frjálsar miðlunar 11,4 milljóna króna vegna ummælanna. Bæjarfulltrúarnir eru Ólafur Þór Gunnarsson VG, Hafsteinn Karlsson Samfylkingunni og svo Guðríður Arnardóttur sem er einnig í Samfylkingunni.

Guðjón og Brynhildur krefjast hæstu bótanna af hálfu Guðríðar eða um sjö milljónir króna vegna ummæla hennar í fjölmiðlum. Þau krefjast þess að Hafsteinn og Ólafur greiði 900 þúsund krónur í miskabætur auk dráttarvaxta. Þá krefjast þau að bæjarfulltrúarnir standi straum af kostnaði vegna birtingar á dómnum í fjölmiðlum.

Í stefnu þeirra á hendur bæjarfulltrúanna, sem Vísir hefur undir höndum, kemur fram að Frjáls miðlun krefjist skaðabóta í ljósi þess að umræðan um fyrirtækið hafi haft skaðleg áhrif á fjárhag þeirra. Krefjast þau hárra miskabóta í ljósi þess að eftir umræðuna hafa verkefni fyrirtækisins handa Kópavogi nánast þurrkast upp líkt og það er orðað í stefnunni.

Málið má rekja til þess þegar Deloitte tók út viðskipti Frjálsrar miðlunar ehf., við Kópavog eftir að minnihluti bæjarstjórnar hafði gagnrýnt þau harðlega í vor. Gunnar Birgisson var þá bæjarstjóri. Var því haldið fram að viðskiptin væru óeðlileg sökum venslatengsla en í niðurstöðu Deloitte kom fram að bærinn hefði hugsanlega brotið lög varðandi opinber innkaup. Lögmannstofan LEX komst hinsvegar að annarri niðurstöðu þegar Gunnar fól þeim að gera úttekt á sama máli.

Fyrirtækið Frjáls miðlun átti í um 50 milljónir króna viðskiptum við bæinn yfir nokkurar ára tímabil.

Þegar haft var samband við bæjarfulltrúana vísuðu þau öllum spurningum á lögmann sinn. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.

Málið verður þingfest fyrir héraðsdómi á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×