Innlent

Gagnrýni á óvandaða málsmeðferð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annarsvegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvalds, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, og hinsvegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum sem dreift var á blaðamannafundi sem forysta flokksins hélt í morgun. Þar segir ennfremur að til standi að keyra í gegnum Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum.

„Sérfræðingar og samtök sem leitað hefur verið umsagnar hjá í meðförum málsins á Alþingi eru nánast allir á einu máli um það, að málið sé ekki fullunnið, og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar og umræðu sé of naumur. Þá blasir við, að ekki hefur farið fram málefnaleg og vönduð umræða um málið í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því frumvarpið var lagt fram."



Í tilkynningunni segir að Sjálfstæðisflokkurinn telji engu að síður þörf á að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hefur lagt fram tillögu í þeim efnum.

„Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag, telja sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. grein stjórnarskrárinnar, þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi."

Þá segir að tillaga Sjálfstæðisflokksins kveði á um, að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi, og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar, þá verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar, án þess að rjúfa þing.

„Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni án þess að tími gefist til vandaðrar málsmeðferðar. Þá gagnrýna sjálfstæðismenn harðlega að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra við endurskoðun stjórnarskrárinnar, heldur þess í stað valinn farvegur ágreinings. Allt stefnir í að rofin verði 50 ára hefð um að leita samstöðu á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni.

Vakin er sérstök athygli á því, að breytingar á stjórnarskrá hafa enga þýðingu fyrir bráðavandann í efnahagslífinu. Fyrirtækin falla hvert af öðru og heimilin hrópa á aðgerðir. Mikilvægt er að setja mál sem varða risavaxinn vanda fyrirtækja og heimila í forgang og sjálfstæðismenn munu hér eftir sem hingað til greiða fyrir þjóðhagslega brýnum þingmálum.

Stjórnarskráin endurspeglar á hverjum tíma grundvallarreglur réttarríkisins. Þær eru mikilvægar á tímum góðæris og hagsældar, en enn mikilvægari á umrótatímum. Það að hreyfa við þessum grundvallarstoðum lagasetningar í landinu eykur enn á óvissuna í íslensku þjóðfélagi, sem leggst þá ofan á óvissuna um efnahagslega velferð þjóðarinnar.Það er hlutverk og skylda stjórnarandstöðu á Alþingi að koma í veg fyrir að í tímaþröng verði ráðist í vanhugsaðar breytingar á stjórnarskránni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×