Erlent

G20: 250 milljarðar dollara í björgunarpakka

Óli Tynes skrifar
Leiðtogar tuttugu helstu iðnvelda heims eru nú samankomnir í London.
Leiðtogar tuttugu helstu iðnvelda heims eru nú samankomnir í London. MYND/AP

Leiðtogar 20 helstu iðnvelda heims eru nálægt því að ná samkomulagi um 250 milljarða dollara björgunarpakka til þess að liðka fyrir alþjóðaviðskiptum. Þeir vilja einnig herða eftirlit með fjármálastofnunum. Þessa 250 milljarða dollara á að nota á næstu tveimur árum til þess að liðka fyrir viðskiptum í gegnum afurðalána- og fjárfestingastofnanir sem og þróunarlánabanka.

Helsti þröskuldurinn í baráttunni gegn kreppunni er að bankar eru dauðhræddir við að lána peninga. Millibankalán hafa nánast lagst af og allir halda að sér höndunum. Þessi lausafjárkreppa veldur því að fyrirtækjum um allan heim er að blæða út.

Ríkisstjórnir um allan heim hafa ausið milljörðum og aftur milljörðum út í atvinnulífið. Það hefur vissulega hjálpað, en það tekur tíma að skila sér.

Mervyn King seðlabankastjóri Bretlands hefur sagt að forsenda fyrir uppsiglingu sé að bankarnir hefji aftur eðlilega lánastarfsemi. En forsenda fyrir því að bankarnir byrji aftur að lána er traust á því að hjólin fari þá að snúast aftur.

Þetta er nokkurskonar vítahringur sem iðnveldin vonast til þess að geta rofið meðal annars með fyrrnefndu framlagi. Hert eftirlit með fjármálastofnunum er einnig ofarlega á lista iðnveldanna tuttugu. Allir eru sammála um að þær hafi fengið alltof frítt spil og meira eftirlits sé þörf í framtíðinni.

Menn eru hinsvegar ekki alveg sammála um hversu langt á að ganga í því efni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×