Erlent

Netnotkun eykur afköst starfsfólks

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Niðurstöður rannsóknar á vegum háskólans í Melbourne koma vafalítið sem blaut tuska í andlit vinnuveitenda sem keppst hafa við að loka á notkun ýmiss konar samskipta- og myndskeiðavefja á vinnustaðnum, svo sem Facebook, Twitter og YouTube svo eitthvað sé nefnt.

Það er markaðsdeild skólans sem framkvæmdi rannsóknina og þykja niðurstöður hennar ótvírætt benda til þess að netnotkun auki einbeitingu, sköpunargleði og framlegð starfsfólks. Brent Coker, sem stendur að baki rannsókninni, segir það lífsnauðsynlegt að fólk noti Netið til að hvíla sig á vinnunni og geri það ekkert annað en að auka því ásmegin. Hugurinn hvílist á meðan flakkað sé um vefsíður sem svo geri það að verkum að starfsmaðurinn snúi sér tvíefldur að starfi sínu á ný.

Rannsóknin náði til 300 starfsmanna frá ýmsum vinnustöðum og sögðust 70 prósent þeirra reglulega gera hlé á störfum til að flakka um Netið og auka þar með afköst sín. Það virðist mesta furða að fólk hafi komið nokkrum sköpuðum hlut í verk fyrir daga Netsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×