Íslenski boltinn

FH-ingar hafa ekki unnið Fylki í Krikanum síðan 2004

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Hallfreðsson í síðasta sigurleik FH á Fylki fyrir fimm árum.
Emil Hallfreðsson í síðasta sigurleik FH á Fylki fyrir fimm árum. Mynd/Stefán

FH-ingar taka í kvöld á móti Fylki í Pepsi-deild karla en það má segja að það hafi verið Árbæjargrýla í Kaplakrika undanfarin fimm ár. Síðast þegar FH vann heimaleik á móti Fylki í úrvalsdeildinni þá hafði félagið aldrei orðið Íslandsmeistari í knattspyrnu.

Síðasti heimasigur FH á Fylki í úrvalsdeildinni var 1-0 sigur 19. júlí 2004. Emil Hallfreðsson skoraði eina mark leiksins með hnitmiðaðu langskoti á 63. mínútu leiksins og skaut þar með Fylki af toppnum og sendi sína menn í FH í efsta sætið.

Sex leikmenn FH í dag voru í byrjunarliðinu í þessum leik (Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason og Atli Viðar Björnsson) og aðrir tveir komu inn á sem varamenn í leiknum (Davíð Þór Viðarsson og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson)

FH vann fimm af næstu sjö leikjum og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skiptið í sögu félagsins. FH-liðið vann titilinn einnig 2005 og 2006 og sat í efsta sætinu í samtals 60 umferðir í röð áður en Valsmenn náðu af þeim toppsætinu og síðar titlinum í lok mótsins 2007.

Frá árinu 2004 hefur FH-liðinu, þrátt fyrir mikla velgengni og fjóra Íslandsmeistaratitla á fimm árum, ekki tekist að vinna Árbæinga á sínum heimavelli. Fylkir hefur unnið tvo leiki og tveir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 6-4 Fylki í vil.

Vandræði FH í heimaleikjum gegn Fylki ná reyndar lengra aftur en frá þessum sigurleik fyrir fimm árum því hann er eini heimasigur FH á Fylki á þessarri öld. Fylkir hefur unnið fjóra af síðustu átta leikjum liðanna í Kaplakrika og þrír leikjanna hafa endaði með jafntefli.

Deildarleikir FH og Fylkis í Kaplakrika á þessarri öld:

2001 FH-Fylkir 0-0

2002 FH-Fylkir 0-3

2003 FH-Fylkir 1-2

2004 FH-Fylkir 1-0

2005 FH-Fylkir 1-2

2006 FH-Fylkir 2-2

2007 FH-Fylkir 0-0

2008 FH-Fylkir 1-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×