Innlent

Óvissa um vegagerðina yfir Lyngdalsheiði

Lyngdalsheiði.
Lyngdalsheiði.
Vegagerðin hefur gefið verktakafyrirtækinu Klæðningu frest út þessa viku til að gera grein fyrir því hvernig það ætli að ljúka gerð nýja vegarins um Lyngdalsheiði. Vinna hefur legið niðri í tvo mánuði.

Klæðning hóf vegagerðina yfir Lyngdalsheiði með látum fyrir tæplega ári með áformum um að ljúka henni mun fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. En svo kom babb í bátinn í vor. Klæðning stóð ekki í skilum við Lýsingu sem brást við í apríl með því að hirða vinnuvélarnar. Þrátt fyrir þetta sögðust Klæðningarmenn hafa fullan hug á að ljúka verkinu og sögðust fyrir tveimur mánuðum stefna að því að unnt yrði að opna veginn fyrir umferð í haust.

Fátt bendir til að það takist því um nokkurn skeið hefur engin hreyfing sést á vinnusvæðinu og raunar ekki ein einasta vinnuvél. Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Selfossi, segir að þarna hafi nánast ekkert verið unnið frá því 23. apríl.

Og nú er biðlund Vegagerðarinnar á þrotum. Svanur segir að Klæðning hafi nú fengið frest til loka þessarar viku viku til að gera Vegagerðinni grein fyrir því hvernig hún ætli að ljúka verkinu. Ef Klæðningu tekst ekki að taka upp þráðinn eða verður svipt verkinu segir Svanur óvíst með framhaldið. Væntanlega þurfi þá að bjóða verkið út að nýju en nú sé komin upp sú staða að ríkisstjórnin sé búin að stöðva öll útboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×