Innlent

Orkuveitan býður völdum í lax þrátt fyrir niðurskurð

Borgarfulltrúa Vinstri grænna misbýður boðsferðir í Elliðaá.
Borgarfulltrúa Vinstri grænna misbýður boðsferðir í Elliðaá.

Orkuveita Reykjavíkur býður kjörnum fulltrúum og völdum starfsmönnum Orkuveitunnar í laxveiði í Elliðará á besta tíma í sumar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna, Þorleifur Gunnlaugsson, sat sinn fyrsta fund hjá stjórn Orkuveitunnar á föstudaginn og lagði fram fyrirspurnir um hversu marga daga Orkuveitan hefði tekið frá, hverjum er boðið og svo hver kostnaðurinn sé af boðsferðunum.

Orkuveita Reykjavíkur hefur orðið fyrir gríðarlegu gengistapi eftir fall krónunnar. Orkuveitan hagnaðist hinsvegar um 1,8 milljarð króna fyrsta ársfjórðung 2009 þrátt fyrir gríðarlega skuldir.

„Það fer í taugarnar á mér að það er verið að skera niður allstaðar, líka hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er verið að taka kexið af borðinu hjá öllum. En svo virðist sem þetta nái ekki til til efsta lagsins. Orkuveitan heldur bara áfram að bjóða í lax," segir Þorleifur sem er ósáttur við forgangsröðun Orkuveitunnar sem hefur þurft að skera talsvert niður síðan kreppan skall á.

Þorleifi þykir undarlegt að menn skeri ekki niður laxveiðina en sjálfum hefur honum verið boðið þrisvar sinnum að veiða í Elliðaánni í sumar vegna þess að hann er kjörinn borgarfulltrúi. Í öll skiptin hefur hann neitað boðinu.

„Sjálfur er ég veiðimaður og mér sveið undan því að neita þessu. En það á bara að úthluta leyfunum í gegnum Stangveiðifélag Reykjavíkur. Þá fær Orkuveitan bara arð að því," segir Þorleifur sem misbýður undan boðsferðunum.

Hann segist hafa heyrt af því að kjörnir fulltrúar og valdir starfsmenn farið að veiða í boði Orkuveitunnar, svo taki þeir með sér þjóna og kokk úr höfuðstöðvum Orkuveitunnar sem þjóna þeim og elda ofan á milli stríða.

„Ég hef heyrt þetta," segir Þorleifur sem segir það ekki það versta við veiðiferðirnar - hann fullyrðir að upp hafi komið atvik þar sem þeim sem er boðið í laxveiði gefi vinum og vandamönnum leyfin komist þeir ekki sjálfir í veiðina.

Þorleifur segir boðsferðirnar tímaskekkju sem eigi ekki við í dag. Nú sé niðurskurður á öllum sviðum hins opinbera á Íslandi. Þá sé ekki við hæfi að bjóða í laxveiðiferðir.

„Og það eru miklar áhyggjur hjá Reykjavíkurborg vegna stöðu Orkuveitunnar," segir Þorleifur en borgin á 95 prósent hlut í henni.

Hann segir gengistengdar skuldir hafa aukist gríðarlega. Menn séu meðvitaðir um að ef illa fari fyrir Orkuveitunni þá geti hún dregið borgina með en hún skuldar yfir 70 milljarði samkvæmt síðasta uppgjöri. Þar vega gengistengdar skuldir Orkuveitunnar þyngst.

Ekki er að vænta svara vegna fyrirspurnar Þorleifs fyrr en í ágúst vegna sumarfría.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×