Innlent

Hleypur milli Reykjavíkur og Akureyrar

Skokkarar. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Skokkarar. Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Gunnlaugur Júlíusson langhlaupari lagði í morgun upp í hlaup milli Reykjavíkur og Akureyrar og áformar að vera sex daga á leiðinni. Tilgangurinn er að safna fé til styrktar Grensásdeild Landspítalans og segir hann að hugmyndin hafi vaknað eftir að hann sá sjónvarpsviðtal við Eddu Heiðrúnu Backman leikkonu.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 130-26-9981. Reikningurinn er í umsjón UMFÍ, og á kennitölu 660269-5929.

Gunnlaugur lagði af stað frá Útvarpshúsinu í morgun. Með honum hljóp fyrsta áfangann Sigurður Guðmundsson frá Ungmennafélagi Íslands en förinni er heitið á landsmótið á Akureyri þar sem Gunnlaugur hyggst ljúka hlaupinu á föstudagskvöld. Fyrsti áningastaður var Grensásdeildin en þar tók á móti köppunum Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, hægri hönd Eddu Heiðrúnar, sem ætlaði að taka á móti Gunnlaugi í Borgarnesi í kvöld.

Gunnlaugur verður, eftir því sem best er vitað, fyrstur til að hlaupa þjóðveginn milli Reykjavíkur og Akureyrar. Áður hefur þó verið hlaupið á milli staðanna því sumarið 1986 hlupu fimm sundkappar frá Akureyri til Reykjavíkur um Sprengisand. Þeir voru tíu daga á leiðinni og hlupu til að safna fé fyrir ólympíulandsliðið í sundi. Þeir hófu hlaupið á Ráðhústorginu á Akureyri og luku því á Lækjartorgi í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×