Innlent

Borgarahreyfing og L-listi ná ekki flugi

Gunnar Helgi Kristinsson.
Gunnar Helgi Kristinsson.

Skoðanakönnun 1,6 prósent segist myndu kjósa L-listann og 2,0 prósent styðja Borgarahreyfinguna, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Báðar fylkingar mælast nánast einungis á höfuðborgarsvæðinu og eru aðeins vinsælli meðal karla en meðal kvenna.

Ný framboð hafa nánast alltaf byrjað hærra í skoðanakönnunum en úrslit úr kosningum segja til um. Fyrir síðustu kosningar mældist Íslandshreyfingin til dæmis í fyrstu könnun sinni með fylgi upp á fimm prósent, en fékk 3,3 prósent í kosningunum.

„Þetta sýnir örugg tök fjórflokksins," segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ. „Mótmælabylgjan birtist sem vinstri sveifla, frekar en í nýjum flokkum." Hann segir að þau nýju framboð sem hafa haft nokkuð fylgi í upphafi, líkt og framboð Vilmundar Gylfasonar, Kvennalistinn og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar, hafi öll átt í erfiðleikum með að halda því fylgi fram að kjördegi. „En hér er ekki einu sinni um slíkt að ræða."

Þriðja framboðið sem ekki myndi ná manni inn er Frjálslyndi flokkurinn, en 2,2 prósent segjast styðja þann flokk, sem er sama hlutfall og fyrir hálfum mánuði.

Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka frá því fyrir hálfum mánuði, og allar innan skekkjumarka. Samfylking bætir við sig 2,3 prósentustigum og segjast nú 33,0 prósent styðja flokkinn. Því fengi Samfylking 22 þingmenn væri kosið nú.

Sjálfstæðisflokkurinn dalar örlítið frá síðustu könnun, um 1,3 prósentustig. 26,9 prósent segjast nú myndu kjósa flokkinn sem myndi færa honum 18 þingmenn.

Vinstri græn halda áfram að dala, nú um 2,7 prósentustig. 21,7 prósent segjast nú myndu kjósa flokkinn. Ef það væri niðurstaða kosninga væru þingmenn flokksins 15.

Framsóknarflokkurinn hins vegar stendur í stað frá síðustu könnun. 12,3 prósent segjast nú myndu kjósa flokkinn og myndi það færa honum átta þingmenn.

Hringt var í 800 manns, miðvikudaginn 11. mars og spurt; Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið væri til kosninga nú? Óákveðnir voru spurðir; Hvaða lista er líklegast að þú myndir kjósa? Þeir sem enn voru óákveðnir voru þá spurðir; Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk. 69,3 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar. Af öðrum sögðust 10,6 prósent ekki myndu kjósa eða skila auðu. 11,0 prósent voru óákveðin og 9,1 prósent vildu ekki svara spurningunni. svanborg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×