Innlent

Saksóknari skoðar 49 mál

49 mál tengd efnahagshruninu eru í skoðun hjá embætti sérstaks saksóknara en sjö er lokið með einum eða öðrum hætti. Fréttablaðið/Stefán
49 mál tengd efnahagshruninu eru í skoðun hjá embætti sérstaks saksóknara en sjö er lokið með einum eða öðrum hætti. Fréttablaðið/Stefán
„Þessir fletir geta alltaf komið upp í rannsóknum á efnahagsbrotum. Við gefum þessu gaum ásamt öðru,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Í netútgáfu breska dagblaðsins Times sagði í gær að þeir sem rannsaki hrun Glitnis, Kaupþings og Landsbankans skoði hvort ásakanir um peningaþvætti eigi við rök að styðjast auk óvenjulegra lánveitinga til aðila þeim tengdum.

Blaðið segir skjöl um málið hafa gengið á milli þeirra sem rannsaki hrunið hér, í Danmörku og hjá Serious Fraud Office í Bretlandi. Ekstra Bladet í Danmörku birti röð greina um íslenskt viðskiptalíf haustið 2006 þar sem fullyrt var að útibú Kaupþings (þá KB banka) í Lúxemborg hefði komið fjármunum rússneskra auðmanna fyrir í skattaskjólum og fjármunir þvegnir. Kaupþing höfðaði meiðyrðamál gegn blaðinu. Sættir náðust.

Þá sagði rússneski auðmaðurinn Boris Berezovskí, sem er svarinn andstæðingur Vladimírs Pútín forseta Rússlands, í byrjun árs að landar sínir sem hliðhollir eru stjórnvöldum, hafi þvegið peninga hér á landi.

Hjá embætti sérstaks saksóknara eru 49 mál í skoðun og er sjö lokið. Enginn sem tengist gömlu bönkunum hefur verið kallaður til sérstaklega vegna rannsóknar um peningaþvætti, að sögn Ólafs. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×