Erlent

Vilja að Bandaríkjamenn bíði með að leggja skutlunum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Geimskutlan Atlantis hefur sig á loft frá Kennedy-höfða.
Geimskutlan Atlantis hefur sig á loft frá Kennedy-höfða.

Rússar vilja gjarnan að Bandaríkjamenn dragi það um nokkur ár að leggja geimskutluflota sínum.

Það hefur lengi staðið til hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA að leggja geimskutluflota sínum á næsta ári eða snemma árs 2011, það er að segja eftir að framkvæmdum við Alþjóðlegu geimstöðina verður endanlega lokið. Skutlurnar eru margar komnar til ára sinna og þykir sérfræðingum NASA tímabært að þróa ný geimför sem þegar eru á teikniborðinu.

Sem dæmi má nefna að geimskutlan Discovery er um þrjátíu ára gömul og hélt í sína fyrstu geimferð 12. apríl 1981. Rússneska geimferðastofnunin Roscosmos hefur þó biðlað til Bandaríkjamanna að hinkra aðeins með að leggja flotanum. Anatoly Perminov þar á bæ segir allt of mikla vinnu lenda Rússlandsmegin við að flytja vistir og mannskap til stöðvarinnar frá því að Bandaríkjamenn hætti með skutlurnar og taki nýju farkostina í notkun sem verður í fyrsta lagi árið 2015.

Charles Bolden, forstjóri NASA, hefur að minnsta kosti ekki sagt þvert nei við þessu og mun heimsækja rússnesku Baikonur-geimferðamiðstöðina á morgun svo hver veit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×