Íslenski boltinn

Aðeins einn Keflvíkingur fæddur þegar þeir unnu síðast í Krikanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark FH í leiknum við Keflavík í Krikanum í fyrra.
Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark FH í leiknum við Keflavík í Krikanum í fyrra. Mynd/Daníel

Keflvíkingar heimsækja topplið FH-inga í fyrsta leik 12. umferðar Pepsi-deildar karla á Kaplakrikavellinum klukkan 16.00 í dag. Keflvíkingar hafa ekki unnið leik í efstu deild í Hafnarfirði síðan að þeir unnu þar 17.maí 1980.

Þegar byrjunarlið Keflavíkur er skoðað frá því í síðasta leik liðsins á móti ÍBV í Eyjum þá kemur í ljós að aðeins einn leikmaður þess, Haukur Ingi Guðnason, var fæddur þegar félagið fór síðast burtu með öll þrjú stigin úr Krikanum. Hinir tíu byrjunarliðsmenn Keflavíkur á Hásteinsvellinum voru fæddir 1981 eða síðar.

FH hefur unnið fjóra síðustu heimaleiki sína á móti Keflavík í úrvalsdeild karla en Keflavík fékk síðast stig eftir 1-1 jafntefli liðanna sumarið 2004. Keflavík hefur skorað fimm mörk í Krikanum undanfarin þrjú ár en þessi mörk hafa þó ekki skilað liðinu neinu stigi.

Keflavík vann FH síðast í Kaplakrika 17. maí 1980 þegar Þórir Sigfússon tryggði liðinu 2-1 sigur með skallamarki á 66. mínútum. FH hafði komist í 1-0 aðeins átta mínútum áður með marki Helga Ragnarssonar. Sigurjón Sveinsson jafnaði síðan leikinn með skallamarki sex mínútum áður en Þórir skoraði sigurmarkið.

Frá þessum leik fyrir 29 árum hafa lið mæst fjórtán sinnum í Kaplakrika í efstu deild. FH-liðið hefur unnið 9 af þessum 14 leikjum og Keflavík hefur aðeins náð í 5 stig þökk sé fimm jafnteflum. Það vekur þó athygli að FH hefur unnið sjö af þessum níu leikjum með aðeins einu marki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×