Íslenski boltinn

Gunnar: Of mikið að þurfa að skora fjögur mörk

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.
Þróttarar sitja sem fastast í fallsæti eftir leiki kvöldsins í Pepsi-deild karla. Gunnar Oddsson þjálfari þeirra var hundfúll eftir tapið gegn Keflvíkingum í kvöld.

"Ég var mjög ósáttur að við skyldum fá þetta mark á okkur í upphafi síðari hálfleiks því mér fannst við hafa ágætis tök á leiknum í fyrri hálfleik, vera ívið sterkari þannig að maður er svekktur með þann kafla í leiknum," sagði Gunnar í samtali við Vísi í leikslok en markalaust var þegar liðin gengu til búningsherbergja.

"Þeir voru ekki sannfærandi í fyrri hálfleik og við vissum að þeir myndu mæta grimmir og setja pressu á okkur. Við komum ágætlega til baka eftir það en það var bara ekki nóg. Svo er það auðvitað djöfullegt ef þeir skora ólöglegt mark í þokkabót, hann var langt fyrir innan þegar þeir skoruðu þriðja markið" bætti Gunnar við.

Fyrir leikinn voru Þróttarar búnir að skora fæst mörk í deildinni og þrátt fyrir að hafa skorað tvö mörk í dag var sóknarleikur þeirra bitlaus á löngum köflum auk þess sem þeir fóru illa með tvö dauðafæri.

"Það erum að fá ágætis færi í þessum leik en á meðan við þurfum að skora fjögur til að vinna leikina þá er það of mikið fyrir okkur. Við höfum verið að ráða ágætlega við varnarleikinn, að undanskildnum leiknum gegn FH, en skorað lítið og ljóst að við þurfum að ná þessu samspili milli varnar og sóknar," sagði Gunnar.

Gunnar sagði of snemmt að hafa áhyggjur af stöðu liðsins þrátt fyrir að liðið væri í fallsæti.

"Við vorum að klára sex leikja hrinu á útivelli á móti mjög sterkum liðum og erum búnir með þrjá leiki heima. Þetta snýst við hjá okkur núna, við höfum verið að taka stigin heima og höldum áfram að berjast í þessu," sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×