Innlent

Mansalsmál: Vinnuveitendur Litháanna í einangrun

Litháar, sem eru í haldi vegna rannsóknar á mansalsmáli, störfuðu hjá verktakafyrirtæki hér á landi og hafa íslenskir eigendur þess verið úrskurðaðir í vikulanga einangrunarvist. Annar Íslendinganna á að hafa hringt í lögreglu fyrir starfsmenn sína til að spyrjast fyrir um litháíska stúlku, sem talið er að hafi átt að neyða í vændi á Íslandi.

Þrír Íslendingar voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness í dag, en lögreglan á Reykjanesi telur þá tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Krafist var einangrunarvistar út af rannsóknarhagsmunum. Tveir úrskurðanna hafa þegar verið kærðir til Hæstaréttar á þeim grundvelli að rannsókn lögreglu sé tilhæfulaus. Þriðji úrskurðurinn verður kærður á morgunn.

Mennirnir þrír, sem eru á fertugs- og fimmtugsaldri, voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í gær, en auk þeirra voru tvær konur teknar höndum sem var sleppt eftir yfirheyrslur. Farið var í aðgerðirnar í kjölfar rannsóknar á meintu mansalsmáli, sem upp kom eftir að litháísk stúlka kom til landsins fyrir um tíu dögum. Talið er að hana hafi átt að neyða í vændi. Andlit hennar er skyggt á þessum myndum að ósk lögreglu og fagaðila til að hlífa henni í þeirri erfiðu stöðu sem hún er í.

Fimm Litháar hafa verið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á mansalsmálinu og var úrskurði yfir þeim framlengt um viku í héraðsdómi í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru Litháarnir í vinnu hjá verktakafyrirtæki sem tveir af Íslendingunum reka. Að ósk Litháanna mun annar þeirra hafa hringt í lögregluna á Suðurnesjum til að spyrja um stúlkuna. Þriðji Íslendingurinn, sem var handtekinn á heimili sínu í gærkvöldi, mun ekki tengjast hinum tveimur svo vitað sé. Allir mennirnir þrír neita algerlega að vera viðriðnir málið, en þeim er haldið vegna brots á þremur greinum almennra hegningarlaga sem fjalla um auðgunarbrot, tryggingasvik og mansal, samkvæmt heimildum.

Lögreglan á Suðurnesjum segir rannsókn málsins ganga ágætlega, en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×