Enski boltinn

Carew: Gaf stráknum treyjuna sína eftir hornfána-óhappið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Carew sést hér fagna markinu sínu og eins og sést má er hornfáninn kominn upp í stúku.
John Carew sést hér fagna markinu sínu og eins og sést má er hornfáninn kominn upp í stúku. Mynd/AFP
Aston Villa maðurinn John Carew fagnaði sigurmarki sínu á móti Stoke á Villa Park um helgina með því að sparka í hornfánann. Það endaði þó ekki vel því hornfáninn lenti í hinum sjö ára Sam Clements.

John Carew bað strákinn afsökunar og sagðist ætla að gefa honum treyjuna sína eftir leikinn. Norðmaðurinn stóð við það, því um leið og lokaflautið gall hljóp hann til Sams og lét hann hafa peysuna sína.

„Mér líður frábærlega," sagði strákurinn við Fædrelandsvennen og foreldrar hans voru ánægðir með Carew.

„Carew kom til okkar og baðst afsökunar. Hann spurði hvort allt væri í lagi og óskaði okkur gleðilegra jóla. Sam var í skýjunum," sagði Helen Clements, móðir hans.

Fjölskyldan er núna búin að ramma treyjuna inn og það þarf ekki að spyrja af því hver sér uppáhaldsknattspyrnumaður hins sjö ára Sam Clements.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×