Innlent

Úttekt Deloitte ekki birt fyrr en á þriðjudag

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Guðríður Arnardóttir segir Deloitte vilja vanda vel til verks.
Guðríður Arnardóttir segir Deloitte vilja vanda vel til verks.
Úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte sem kynna átti fyrir bæjarfulltrúm í Kópavogi í hádeginu í dag verður ekki kynnt fyrr en á þriðjudag. Úttektin snýr að viðskiptum Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa miðlun sem er er í eigu Brynhildar Gunnarsdóttur, dóttur Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi.

„Ég held að þeir séu bara að vanda sig," segir Guðríður Arnardóttir, fulltrúi Samfylkingar í bæjarstjórn Kópavogs. Hún segir starfsmenn Deloitte hafa unnið hörðum höndum við gerð úttektarinnar. „Þetta er greinilega meira verk en þér héldu að það væri í byrjun," segir Guðríður.

Útgáfufélagið Frjáls miðlun hefur á síðustu fjórtán árum fengið rúmar 70 milljónir króna frá Kópavogsbæ fyrir ýmis konar verkefnavinnu fyrir bæjarfélagið. Meðal annars fyrir gerð ársskýrslna, kynningarefnis, bæklinga og önnur verkefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×