Innlent

Býst við 100 prósenta heimtum

Samkvæmt skýrslu óháðs matsfyrirtækis býst markaðurinn við því að kostnaður vegna Icesave verði 100 milljarðar króna.
Samkvæmt skýrslu óháðs matsfyrirtækis býst markaðurinn við því að kostnaður vegna Icesave verði 100 milljarðar króna.

Markaðurinn væntir þess að 100 prósent fáist upp í forgangskröfur í Landsbankann. Þetta kemur fram í skýrslu óháða matsfyrirtækisins IFS Ráðgjöf sem kom út á miðvikudag. Þetta er bjartsýnni spá en hjá skilanefnd bankans, en hún gerir ráð fyrir að níutíu prósenta endurheimtu­hlutfalli í forgangskröfur.

Verði þetta reyndin segir fyrirtækið að kostnaður vegna Icesave-samningsins verði aðeins vaxtagreiðslur, sem nemi 100 milljörðum. Standist spá skilanefndarinnar hins vegar og aðeins níutíu prósent eignanna endurheimtist, nemur kostnaður við Icesave 196 milljörðum króna. Af því verða 52 milljarðar eftirstöðvar höfuðstóls en vaxtakostnaður verður um 144 milljarðar.

Samkvæmt skýrslunni eru það fyrst og fremst horfur á betra efnahagsástandi á Bretlandi sem skýra bjartsýni markaðarins, en flestar eignir bankans eru þar. Til að mynda er talið að hagvöxtur þar hafi verið um 0,2 prósent á þriðja ársfjórðungi 2009.

Heimtist níutíu prósent af eignum verður tap við hrun bankans 75 milljarðar króna, „en til samanburðar lítur flest út fyrir að tap vegna yfirtöku ríkisins á peningamarkaðssjóðum bankanna nemi um 50 milljörðum og áætlað tap Seðlabankans af veðlánum til gömlu bankanna er um 270 milljarðar,“ segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×