Erlent

Fullir breskir þjófar sofnuðu í miðju innbroti

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Sviðsett mynd.
Sviðsett mynd. Mynd/Hilli
Tveir breskir þjófar, þeir Keith Cullen og Paul Wiggins, létu áfengisþorstann eyðileggja fyrir sér innbrot í áfengislager.

Glæpurinn átti sér stað í borginni Swansea, en samkvæmt vefútgáfu Telegraph tókst þeim ekki að flýja lengra en í garðinn við hliðiná, þar sem þeir sofnuðu.

Lögregla greip þá daginn eftir, en þeim hafði þá tekist að selflytja áfengi fyrir meira en 140.000 krónur út úr lagernum, og valda miklum skemmdum. Þeir höfðu ekki staðist mátið að dreypa á góssinu meðan innbrotinu stóð.

Þegar til stóð að rétta yfir þeim voru þeir aftur báðir ölvaðir, og annar þeirra svo mjög að honum var ekki hleypt inn í dómshúsið.

Réttað var yfir mönnunum, sem eru 33 og 45 ára, í fjarveru þeirra, og þeir sakfelldir fyrir innbrot og þjófnað. Búist er við að þeim verði birtur dómurinn í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×