Erlent

Jólaverðstríðið skollið á í Bretlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Margir ættu að geta gert reyfarakaup fyrir jólin í breskum stórmörkuðum.
Margir ættu að geta gert reyfarakaup fyrir jólin í breskum stórmörkuðum.

Verðstríð breskra stórmarkaða fyrir jólahátíðina er hafið af fullum krafti. Tesco, Asda og fleiri breskir stórmarkaðir eru farnir að hríðlækka verðið til að laða að sér kreppuhrjáða Breta í jólaversluninni. Frosnar kjötvörur, tölvuleikir, DVD-spilarar og vetrarfatnaður er það sem lækkar mest í verði og segja forsvarsmenn Tesco að lækkunin hjá þeim nemi í heildina 250 milljónum punda en það jafngildir tæplega 52 milljörðum króna svo ætla mætti að neytendur bæru eitthvað úr býtum.

Fjármálastjóri Asda lét hafa eftir sér að jólin í ár yrðu mesta verðbyltingin í heilan áratug. Þetta staðfestir Maureen Hinton hjá verðkönnunarfyrirtækinu Verdict og bætir því við að ófáar sérverslanir við vinsælustu verslunargötur Lundúna hafi lagt upp laupana á þessu ári og styrjöldin standi því að mestu á milli stórmarkaða og ódýrari verslana um þessi jól.

Þessi viðleitni verslananna skilar sér greinilega og má sjá fjölmörg dæmi þess að breskir neytendur séu þegar farnir að sanka að sér væntanlegum jólagjöfum. Þar má til dæmis nefna forláta dúkkuhús sem Asda býður nú með miklum afslætti og verðleggur á 35 pund, rúmar 7.000 krónur. Allar birgðirnar seldust upp á tveimur dögum þrátt fyrir að verslunin hafi pantað þrefalt magn síðasta árs. Og nóvember er ekki einu sinni hálfnaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×