Innlent

Síldin fundin

Íslenska sumargotssíldin er fundin. Síldveiðiskipið Sighvatur Bjarnason, sem er eitt fjögurra skipa í umfangsmikilli síldarleit á vegum Hafrannsóknarstofnunar, fann í gær miklar torfur á Breiðasundi skammt vestan Stykkishólms. Skipstjórinn, Jón Eyfjörð, segir að sér virðist að þarna sé talsvert af síld og telur hann útlitið bjart.

Hafrannsóknaskipið Dröfn er einnig komið á Breiðafjörð til að kanna síldina en ekki kemur þó í ljós fyrr en eftir helgi hvort eitthvað af henni er sýkt, þegar sýni hafa verið rannsökuð. Sýking í síldinni hafði slæm áhrif í fyrra og dró verulega úr verðmætunum.

Annað leitarskip, Jóna Eðvalds, fann einnig síld undan Suðausturlandi á Breiðamerkurdýpi og kastaði á hana og fékk 50 tonn. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið en ef vel tekst til gæti síldarstofninn skilað nokkurra milljarða króna útflutningsverðmætum á næstu mánuðum.

Sannkallað síldarævintýri hefur myndast nokkrar undanfarnar vertíðir á þröngum svæðum innarlega á Breiðafirði, fyrst á Grundarfirði, og síðan við Stykkishólm, þar sem síldveiðiskipin mokuðu upp milljarðaverðmætum á fáum vikum, og benda þessi tíðindi nú til þess að sú saga gæti endurtekið sig.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×