Erlent

Mikill áhugi erlendra fjölmiðla

Guðjón Helgason skrifar
Fjölmiðlar um allan heim hafa í morgun fjallað um úrslit Alþingiskosninganna í gær. Breska ríkisútvarpið BBC segir mið- og vinstriflokka hafa unnið afgerandi sigur í kosningunum í gær. Vitnað er í formann Sjálfstæðisflokksins sem segir að flokkurinn hafi tapað í þetta sinn en muni sigra síðar.

Danska útvarpið fjallar um auða atkvæðaseðla frá óánægðum kjósendum sem séu ósáttir með hvernig ráðamenn hafi tekið á bankahruninu.

Himalayan Times lætur sitt ekki eftir liggja og segir að kjósendur á Íslandi hafi refsað Sjálfstæðismönnum fyrir bankahrunið.

Afríki vefmiðlinn iAfrica fjallar einnig um íslensku kosningarnar og veltir fyrir sér hvort Samfylking og Vinstri grænir nái saman um Evrópumálin.

Í stærsta lýðveldi heims, Indlandi, sem nú er í miðjum mánaðalöngum kosningum fjallar The Times of India um þá staðreynd að í fyrsta sinn í lýðveldissögu Íslands hafi vinstrimenn fengið meirihluta á þingi.

Enska vefútgáfa arabíska fréttamiðilsins Al Jazeera veltir fyrir sér hvernig ný stjórn ætli að hagræða í ríkisrekstri á Íslandi sem enn eigi eftir að svara.

Kosningarnar voru næst efta frétt á forsíðu vefútgáfu eins stærsta dagblaðs Þýskalands Suddeutsche Zeitung þar rétt fyrir neðan umfjöllun um svínaflensu sem vekur ugg víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×