Enski boltinn

Hiddink rétti maðurinn fyrir Chelsea?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guus Hiddink.
Guus Hiddink.

Guus Hiddink, þjálfari Rússlands, er talinn meðal líklegustu manna til að verða næsti knattspyrnustjóri Chelsea. Hiddink var ofarlega á óskalista félagsins þegar það ákvað að ráða Luiz Felipe Scolari.

John Hollins, fyrrum leikmaður Chelsea, telur að Hiddink sé rétti maðurinn fyrir félagið. „Það er rússnesk tenging. Roman Abramovich hefur mikið álit á Hiddink eftir það sem hann hefur gert með landslið Rússlands," sagði Hollins.

Einnig hefur nafn Avram Grant verið nefnt en Grant kom Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðasta tímabil. „Ein vítaspyrna kom í veg fyrir að Grant sé hetja í augum stuðningsmanna Chelsea," sagði Hollins en Chelsea tapaði úrslitaleiknum fyrir Manchester United í vítaspyrnukeppni.

„Ef það yrði gerð skoðanakönnun meðal stuðningsmanna þá held ég að 90% þeirra vildu fá Gianfranco Zola og Steve Clarke aftur á Stamford Bridge. Þeir hafa verið að gera góða hluti með West Ham. Ég vona bara að forráðamenn Chelsea hugsi þetta vel og vandlega og stökkvi ekki á stærsta nafnið sem er laust," sagði Hollins.

Blaðamenn The Sun hafa tekið saman lista yfir menn sem Chelsea gæti leitað til. Hiddink, Zola og Grant eru allir á þeim lista. Einnig nefna þeir Jose Mourinho en það verður að teljast mjög ósennilegt að hann yfirgefi Inter sem situr á toppi ítölsku deildarinnar til að taka aftur við Chelsea.

Á listanum er einnig nafn Frank Rijkaard sem hefur verið atvinnulaus síðan hann yfirgaf Barcelona. Roberto Di Matteo hefur einnig verið nefndur en hann er hetja í augum stuðningsmanna Chelsea sem fyrrum leikmaður með liðinu. Hann stýrir nú MK Dons og hefur náð góðum árangri með liðið. Þá er að lokum Roberto Mancini á listanum en umboðsmaður hans segir Chelsea ekki hafa haft samband.


Tengdar fréttir

Mancini ekki næsti stjóri Chelsea

Umboðsmaður Roberto Mancini hefur útilokað að þessi fyrrum þjálfari Inter verði næsti knattspyrnustjóri Chelsea. Luiz Felipe Scolari var rekinn frá Chelsea í dag og var Mancini talinn líklegur til að taka við af honum.

Scolari rekinn frá Chelsea

Luiz Felipe Scolari þjálfari Chelsea hefur verið rekinn frá félaginu. Það er Sky fréttastofan sem segir frá þessu en frammistaða liðsins á þessu tímabili er sögð ástæða uppsagnarinnar. Chelsea situr nú í fjórða sæti deildarinnar sjö stigum á eftir toppliði Manchester United. John Terry fyrirliði liðsins bað stuðningsmenn afsökunar eftir markalaust jafntefli við Hull City um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×