Innlent

Athugasemd frá Fréttablaðinu vegna yfirlýsingar Björgólfs Thors

Í kjölfar yfirlýsingar Björgólfs Thors Björgólfssonar fyrr í dag hafa Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson, ritstjórar Fréttablaðsins, sent frá sér eftirfarandi athugasemd.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Í yfirlýsingu frá Björgólfi Thor Björgólfssyni kemur fram að honum og föður hans hefur ekki verið stefnt vegna fimm milljarða króna skuldar við Nýja Kaupþing eins og sagt er í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að gengið hafi verið frá stefnu á hendur þeim feðgum innan bankans fyrir nokkrum vikum. Samkvæmt orðum Björgólfs hefur hún ekki verið afhent. Beðist er velvirðingar á þessu mishermi.

Öll meginatriði fréttarinnar standa hins vegar óhögguð: Björgólfsfeðgar eru í persónulegri ábyrgð fyrir fimm milljarða skuld sem er í uppnámi í Nýja Kaupþing og sú skuld er tilkomin vegna kaupa Samsonar, eignarhaldsfélags þeirra feðga, á Landsbankanum 2002.

Í frétt Fréttablaðsins kom skýrt fram að Landsbankinn hafi verið að fullu greiddur á sínum tíma. Það þyki á hinn bóginn athyglisvert að í kjölfar yfirtöku ríkisins á Kaupþingi í haust sé það ríkisbanki sem þurfi að innheimta fimm milljarða skuld Björgólfsfeðga vegna þátttöku þeirra í einkavæðingu Landsbankans.

Ritstjórar Fréttablaðsins




Tengdar fréttir

Björgólfur Thor: Okkur hefur ekki verið stefnt

Björgólfur Thor Björgólfsson segir í tilkynningu sem hann sendi frá sér nú í morgun að honum og föður hans, Björgólfi Guðmundssyni hafi ekki verið stefnt vegna vangoldinnar skuldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×