Hjörtur Logi Valgarðsson, leikmaður FH, segir að sínir menn hafi ekki sýnt sínar bestu hliðar í kvöld er liðið gerði markalaust jafntefli við Þrótt á útivelli.
„Til að byrja með létum við boltann ekki ganga nógu hratt á milli manna," sagði Hjörtur. „Það er alltaf erfitt þegar að andstæðingurinn pakka í vörn á móti okkur. Þess vegna fengum við fá færi. Úrslit leiksins eru mikil vonbrigði."
Mikil meiðsli eru í herbúðum FH en Hjörtur segir það ekki hafa áhrif á spilamennsku liðsins. „Menn eiga að koma inn í þetta lið og sýna sig og sanna. Aðrir leikmenn eiga að stíga upp. Þetta snýst bara um hugarfarið."
Forysta FH á KR á toppi deildarinnar er nú fimm stig þegar níu stig eru enn í pottinum. „Við þurfum bara að vinna okkar leiki og þá þurfum við ekkert að hugsa um þá. Við hins vegar erum að hleypa þeim inn í þessa baráttu sem við ætluðum okkur ekki að gera. Við ætluðum að klára þetta mót eins snemma og við gátum."