Innlent

Bílskúrsfúskurum hefur fjölgað

Hvers konar fúsk í kringum bílaviðgerðir hefur aukist gríðarlega í kjölfar bankahrunsins. Bílskúrsviðgerðarmenn hafa sprottið upp eins og gorkúlur en viðgerðirnar skila sjaldan tilætluðum árangri. Fjölmörg dæmi eru um hálf bremsulausa bíla í umferðinni vegna þessa.

Bílskúrsfyrirtækjum hefur fjölgað eftir að kreppan skall á en þau bjóða ódýrari bílaviðgerðir en viðurkennd bílaverkstæði. Í flestum tilvikum er um svarta starfsemi að ræða.

Viðgerðirnar eru hins vegar oftar en ekki ófullkomnar ef ekki hættulegar. Bílaeigendur hafa þannig oft þurft að láta gera við bílinn aftur og þá hjá viðurkenndum verkstæðum. „Við sjáum svona tilfelli einu sinni í viku," segir Jón Baldvin Jónsson eigandi bifreiðaverkstæðis Friðriks Ólafssonar.

Kostnaðurinn margfaldast enda viðgerðir fúskaranna oft ansi skrautlegar. „Það er búið að rífa bílinn í sundur. Rífa flókna hluti í spað. Þá þarf kúnninn að borga fyrir aukavinnu hjá okkur til þess að púsla þessu saman. Fyrir að reyna finna alla bolta og skrúfur sem búið er að rífa í spað og henda því út um allan bíl," segir Jón Baldvin.

Alvarlegustu dæmin snúa þó að viðgerðum á bremsubúnaði bíla. Jón segir algengt að fúskarar klári alls ekki viðgerðina þannig að bremsubúnaðurinn virkar ekki sem skyldi. „Mér persónulega líður ekkert alltof vel að vera í umferðinni innan um þessa bíla sem hafa fengið hálfkláraða bremsuviðgerð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×