Enski boltinn

Michael Owen verður með Newcastle um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen fagnar marki með Newcastle.
Michael Owen fagnar marki með Newcastle. Mynd/GettyImages
Michael Owen hefur náð sér af ökklameiðslunum, sem hafa haldið honum frá síðustu fimm leikjum, og verður með Newcastle á móti Hull í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Newcastle þarf nauðsynlega á mörkum Owen að halda þar sem liðið hefur dregist niður í fallbaráttuna og er núna aðeins einu sæti fyrir ofan fallsæti. Newcastle hefur aðeins skorað eitt mark og fengið eitt stig út úr síðustu þremur leikjum sínum.

„Þú vilt hafa þína bestu leikmenn með og Michael er einn af þeim. Það hjálpar liðinu mikið andlega að hann sé klár í leikinn á móti Hull," sagði Chris Hughton, sem stjórnar Newcastle-liðinu út tímabilið.

„Michael Owen er ekki aðeins einn af betri framherjum ensku úrvalsdeildarinnar heldur einnig í hópi bestu framherja heims. Það hefur verið erfitt hann að glíma við öll þessi meiðsli en það sem hefur staðist þá raun er að hann heldur alltaf áfram að skora," sagði Chris Hughton.

Owen hefur skorað 30 mörk í 70 leikjum fyrir Newcastle þar af hafa tíu þessara marka komið á þessu tímabili. Hann skoraði síðast í 2-2 jafntefli á móti West Ham 10. janúar síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×