Innlent

Þakklátir fyrir að hafa vinnu

Mannauðsstjórinn segir starfsfólk efins um að afnám fastra aksturssamninga leiði til sparnaðar.
Fréttablaðið/GVA
Mannauðsstjórinn segir starfsfólk efins um að afnám fastra aksturssamninga leiði til sparnaðar. Fréttablaðið/GVA

„Viðbrögðin eru mikill skilningur og líka órói,“ segir Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans, um viðtökur starfsmanna á boðuðum breytingum á kjörum þeirra.

Föst yfirvinna og fastar akstursgreiðslur starfsmanna verða skornar niður. „Varðandi aksturinn er mikil vantrú hér í þessu sólarhringsfyrirtæki á að breytingarnar muni spara nokkurn hlut og margir fullyrða að hann verði dýrari,“ segir Erna. „Við erum mikið bráðasjúkrahús og erum með þjónustu 24 tíma á sólarhring. Þá ber okkur að koma fólki til vinnu og þegar almenningssamgöngur eru ekki í gangi er ekki um annað að tala en leigubíla eða þá að fólk keyri sinn eigin bíl og haldi akstursbók.“

Erna segir mismikinn óróleika meðal starfsmanna. „Það verður að segjast eins og er að það er heilmikill óróleiki,“ lýsir Erna. Hún ítrekar að ekki sé verið að segja upp starfsmönnum. „Við erum að breyta kjörum með þriggja mánaða fyrirvara. Það að segja upp er önnur sjálfstæð ákvörðun sem hver og einn hefur alltaf val um.“

Erna segist ekki hafa heyrt af því að fólk sé að segja upp vegna óánægju með breytingarnar. „Ég held að fólki sé annt um vinnuna sína og þakklátt fyrir að hafa vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×