Enski boltinn

Enski í dag: Draumabyrjun hjá Jo

Lánsmaðurinn Jo var maður dagsins hjá Everton
Lánsmaðurinn Jo var maður dagsins hjá Everton NordicPhotos/GettyImages

Brasilíumaðurinn Jo átti sannkallaða draumabyrjun með liði Everton í dag þegar hann átti þátt í öllum þremur mörkum liðsins í 3-0 sigri á Bolton.

Grétar Rafn Steinsson lék í nýrri stöðu með Bolton á Goodison Park í dag og var á hægri kanti, en Bolton mátti þakka fyrir að vera ekki fimm mörkum undir þegar Everton náði loks að brjóta ísinn á 40. mínútu.

Þá var það Mikel Arteta sem skoraði mark úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Jo. Brasilíumaðurinn kom Everton svo í 2-0 á 49. mínútu og innsiglaði svo sigurinn með marki úr víti í uppbótartíma.

Aston Villa setti félagsmet með sjöunda útisigrinum í röð þegar liðið lagði lærisveina Sam Allardyce 2-0 á Ewood Park. James Milner og Gabriel Agbonlahor skoruðu mörk Villa, sem vann verðskuldaðan sigur og komst í þriðja sæti deildarinnar.

Villa fór með sigrinum upp fyrir Chelsea sem varð að láta sér nægja markalaust jafntefli við Hull á heimavelli sínum. Chelsea missti þarna af dýrmætum stigum í baráttunni um titilinn, en Hull-menn eru eflaust ánægðir með gott stig á erfiðum útivelli eftir slakt gengi undanfarið.

Newcastle vann nauðsynlegan sigur á botnliði West Brom 3-2 í fjarveru knattspyrnustjórans Joe Kinnear sem fluttur var á sjúkrahús í morgun vegna veikinda.

Damien Duff, Peter Lövenkrands og Steven Taylor skoruðu mörk Newcastle í dag en Marc-Antoine Fortune bæði mörk West Brom.

Sunderland lagði Stoke 2-0 þar sem Stoke lék með tíu menn frá 65. mínútu eftir að Matthew Etherington var vikið af velli. Kenwyne Jones og David Healy nýttu sér liðsmuninn og tryggðu Sunderland sigurinn, sem þýðir að liðið er nú sjö stigum frá fallsæti.

Loks gerðu Wigan og Fulham markalaust jafntefli í lélegum leik á JJB stadium sem þýðir að Fulham á enn eftir að vinna á útivelli á leiktíðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×