Erlent

Birtu mynd af Manson

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Charles Manson.
Charles Manson.

Fangelsisyfirvöld í Kaliforníu hafa birt mynd af raðmorðingjanum Charles Manson sem setið hefur inni í tæp 40 ár.

Morðinginn alræmdi er orðinn 74 ára gamall og töluvert tekinn að grána enda hefur hann setið í fangelsi síðan réttarhöldunum yfir honum lauk árið 1971 en þá hlaut hann dauðadóm. Þeim dómi var þó aldrei framfylgt þar sem Kaliforníuríki lagði dauðarefsingar af árið 1972.

Manson, sem ásamt glæpahópi sínum, hinni svonefndu Manson-fjölskyldu, myrti að minnsta kosti sjö manns sumarið 1969, hefur sótt um reynslulausn 11 sinnum en aldrei hlotið náð fyrir augum dómnefndar. Meðal fórnarlamba Mansons var leikkonan Sharon Tate, eiginkona kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski sem myrt var á heimili þeirra hjóna.

Á myndinni af Manson má enn sjá votta fyrir hakakrossinum sem hann skar í enni sitt meðan á réttarhöldum yfir honum stóð árið 1970. Hann kemur næst fyrir dómnefnd árið 2012 til að freista þess að fá reynslulausn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×