Fótbolti

Framtíð fótboltans er í höndum mannanna með flautuna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Nordic Photos/Getty Images

Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að það sé kominn tími á að fá fleiri atvinnudómara í knattspyrnuna. Hann segir dómara ráða svo miklu í knattspyrnuleikjum að nauðsynlegt sé að þeir séu dómarar að atvinnu til þess að bæta leikinn.

Mikil umræða er um dómaramál eftir að Norðmaðurinn Tom Henning Övrebo gerði sig sekan um afdrifarík mistök í leik Chelsea og Barcelona í Meistaradeildinni. Sjálfur er Övrebo sálfræðingur en dæmir í hjáverkum.

„Ég endurtek það sem ég hef sagt síðustu tíu ár að við verðum að bæta dómgæsluna í leiknum. Það er kominn tími á að eignast fleiri atvinnudómara. Við ættum aðeins að notast við atvinnudómara á seinni stigum stórkeppna," sagði Blatter sem sá ekki leik Chelsea og Barcelona þar sem hann var í flugi.

„Það eru atvinnudómarar í mörgum löndum en þessum löndum þarf að fjölga. Dómgæsla þarf að vera aðalstarf þessara manna," sagði Bæatter og bætti við.

„Það verður alltaf rifist um hvort frammistaða dómara sé vond eða góð. Ég segi samt að framtíð íþróttarinnar er í höndum mannanna með flautuna því það er alltaf svo mikð í húfi. Sérstaklega í leikjum eins og Chelsea gegn Barcelona."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×