Innlent

Boðflenna beit afmælisgest

Mikill erill var í miðborginni í nótt.
Mikill erill var í miðborginni í nótt.

Um klukkan tuttugu mínútur yfir eitt í nótt barst lögreglu tilkynning um slagsmál á skemmtistað í austurhluta borgarinnar en um einkasamkvæmi var að ræða. Þrír karlmenn mættu óvelkomnir í afmælisveislu og bitu einn gestinn. Dyraverðir staðarins bentu á mennina og rak lögregla þá út af staðnum. Nokkrir afmælisgestir voru ósáttir við þá ákvörðun lögreglu og létu skap sitt bitna á lögreglumönnunum.

Á endanum voru þrír afmælisgestir handteknir en einn þeirra greip í klof lögreglumanns, annar otaði brotnu bjórglasi að öðrum og sá þriðji veittist að lögreglumanni sem reyndi að handtaka þann fyrsta. Þessir þrír gista nú fangageymslur lögreglunnar.

Um miðnætti var síðan brotist inn í glerauganverslun Blindrafélagsins í Hamrahlíð. Þjófarnir sópuðu varningi í svartan ruslapoka og hlupu í átt að Öskjuhlíðinni. Tilkynnandi sem kom að mönnum elti þá á hlaupum og hentu þeir þá þýfinu frá sér við Hlíðarskóla. Mennirnir komust undan en varningurinn náðist óskemmdur.

Þá var hreinsað út úr fjölmennu partýi á Sævangi í Hafnarfirði, skrúfað frá brunahana í Kauptúni og síðan var tilkynnt um innbrot í Breiðholtsskóla rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Rúða hafði verið brotin en fjórir aðilar á aldrinum 14-17 ára voru gómaðir skammt frá. Tveir þeirr viðurkenndu að hafa brotist inn í skólann en fartölva fannst í fórum þeirra. Sú tölva var úr Waldorfskóla í Hraunbergi en síðar kom í ljós að einnig hafði verið brotist þar inn.

Einnig var brotist inn á hárgreiðslustofu í Eddufelli rétt fyrir klukkan fjögur. Þjófurinn hefur verið eitthvað ósáttir með hárgreiðsluna því hann nældi sér í hárgel. Stífgelaði þjófurinn hefur ekki enn fundist.

Að sögn lögreglu var mikill erill í bænum í nótt og mikið af fólki. Ein líkamsárás var tilkynnt og var þolandinn fluttur á slysadeild með skurð á hálsi. Að sögn hjúkrunarfólk mátti litlu muna að verr færi en maðurinn var skorinn með brotinni flösku. Vitað er hverjir gerendurnir eru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×