Innlent

Dótturfélagið græðir milljónir úr stofunni

Valur Grettisson skrifar
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, á góðum degi.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, á góðum degi.

Útgáfufélagið Frjáls miðlun, sem er í eigu dóttur Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra Kópavogs og eiginmanns hennar, er með aðsetur á heimili þeirra hjóna. Gunnar hefur verið gagnrýndur harkalega fyrir að gera samninga við Frjálsa miðlun. Dóttir hans, Brynhildur Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar, Guðjón Gísli Guðmundsson, eiga og reka félagið.

Í DV hefur því verið haldið fram að bæjarfélagið hafi greitt Frjálsri miðlun allt að 51 milljón króna. Þá er því einnig haldið fram að ekki hafi verið haldið eðlilegt útboð um þau verkefni sem útgáfufélagið sá um. Meðal þeirra verkefna sem Frjáls miðlun vann fyrir bæjarfélagið var ársskýrsla en henni var dreift á öll heimili bæjarins. Þess má hinsvegar geta að verkefni undir fimm milljónum króna eru ekki endilega útboðsskyld.

Síðast kom í ljós að Lánastofnun námsmanna, LÍN, hafði greitt félaginu 11 milljónir króna. Á sama tíma gegndi Gunnar stöðu stjórnarformanns sjóðsins. Nýr menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur þegar boðað rannsókn á greiðslunum til félagsins.

Gunnar hefur neitað að hafa hafa komið nálægt greiðslunum í fjölmiðlum..

Minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs hefur óskað eftir samantekt á heildargreiðslum til Frjálsrar miðlunar. Gunnar hefur látið hafa eftir sér að hann sé hvergi bangin við niðurstöðuna. Hann segir málið persónulega árás á sig og fjölskyldu sína.

Ekki náðist í Brynhildi, dóttur Gunnars, þegar reynt var að hringja í heimasímann - sem er reyndar einnig fyrirtækjasími Frjálsra miðlunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×