Innlent

Fyrirvararnir styrkja samningana

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Mynd/Daníel Rúnarsson
Fyrirvarar Alþingis við Icesave samningana við bresk og hollensk stjórnvöld styrkja samningana, að mati Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Í umræðum á Alþingi í morgun sagði hann að í umræðunni um samningana undanfarin misseri hafi verið reynt að færa sökina frá þeim sem orsökuðu vandamálið yfir á þá sem bera ábyrgð á því að leysa málið. Hann sagðist ekki telja að sú söguskýring muni halda í framtíðinni. „Það gat aldrei komið lítill og sætur samningur til að leysa úr svona stóru máli."

Ráðherrann vitnaði til umræðunnar í þinginu í gær og sagði gott að allir, meira að segja framsóknarmenn, telji sig hafa náð miklum árangri eftir að upprunalega samkomulagið hafi verið kynnt í júní. Það væri gott að sem flestir væru ánægðir. Hann tæki það hlutskipti glaður að sér að vera eini maðurinn sem ekki væri sagður glaður með breytingarnar.

Steingrímur kvaðst ekki kvarta undan því sem um hann hafi verið sagt í tengslum við Icesave samningana. En honum sárni þær árásir sem saklausir embættismenn hafi þurft að sitja undir án þess að geta varið sig. Þeir hafi einungis verið fulltrúar sinna ráðuneyta og stjórnvalda.

Steingrímur sagði ljóst að framundan væru erfiðir tímar en að framtíðin væri einnig björt. Íslendingar hafi alla burði til að vinna sig í gegnum erfiðleikana.




Tengdar fréttir

Fellum samningana og gerum nýja

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir framgöngu sína í Icesave málinu við upphaf þingfundar í morgun. Hann lagði til að frumvarpið um ríkisábyrgð yrði fellt og nýr samningur gerður.

Breið samstaða ákaflega dýrmæt

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir breiða samstöðu í Icesave málinu ákaflega dýrmæta fyrir framhaldið. Hún segir næsta verkefni ráðamanna vera að sannfæra Breta og Hollendinga um að íslenska þjóðin sé ekki að hlaupast undan ábyrgð heldur þvert á móti að axla ábyrgð.

Ríkisstjórnin treystir á minnihlutann

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það vera hættumerki að ríkisstjórnin vilji keyra Icesave málið í gegnum Alþingi þrátt fyrir litla samstöðu í þinginu. Ríkisstjórnin stefni í fen því hún verði aldrei neitt annað en valdabandalag Samfylkingar og Vinstri grænna sem treysti á stjórnarandstöðuna að leysa úr erfiðustu vandamálum sínum. Íslenska þjóðin eigi mun betra skilið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×