Innlent

Rannsóknir á hendi lögreglu

Ragna Árnadóttir Útlendingastofnun og lögregla hafa almennt samráð um meðferð brottvísunarmála.
Ragna Árnadóttir Útlendingastofnun og lögregla hafa almennt samráð um meðferð brottvísunarmála.

Lögregla fer með eftirlit með útlendingum hér á landi og tekur í tilviki EES-borgara ákvörðun um frávísun þeirra, ef tilefni til afskipta rís innan sjö sólarhringa frá komu til landsins.

Þetta segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra, spurð hvort tilefni sé til að rýmka heimildir Útlendingastofnunar til brottvísunar erlendra brotamanna geri lögregla formlegar, rökstuddar tillögur um tiltekna einstaklinga.

„Verði tilefni til afskipta síðar er það Útlendingastofnun sem getur frávísað eða brottvísað viðkomandi,“ segir dómsmálaráðherra.

„En það er alltaf lögreglan sem rannsakar mál og sendir rannsóknarniðurstöður sínar og gögn til Útlendingastofnunar þegar mál er nægjanlega upplýst til að ákvörðun megi undirbúa eða taka.“ Ragna segir Útlendingastofnun og lögreglu hafa almennt samráð um meðferð mála eftir því sem rannsókn og málsmeðferð í refsivörslukerfinu vindi fram.

„Þegar um EES-borgara er að ræða eru gerðar ríkar kröfur til þess að fullvíst sé að af viðkomandi einstaklingi stafi ógn, sem að minnsta kosti yrði þá jafnan til þess að ástæða væri til að gefa út ákæru en eðli brots skiptir einnig máli við ákvörðun um brottvísun.“ - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×