Innlent

Borgarfulltrúar vilja flestir sitja áfram

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá fundi borgarstjórnar.
Frá fundi borgarstjórnar.
Meirihluti borgarfulltrúa ætlar að sækjast eftir endurkjöri í borgarstjórnarkosningunum næsta vor en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson gefur ekkert upp um framtíðaráform sín. Dagur B. Eggertsson og Gísli Marteinn Baldursson svöruðu ekki ítrekuðum tölvupóstum né símtölum fréttastofu.

Næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí 2010 og um leið lýkur afar viðburðaríku kjörtímabili í borgarstjórn. Enn sem komið er hafa þrír meirihlutar verið myndaðir frá kosningunum 2006. Þá hafa fjórir borgarfulltrúar látið af störfum og einn verið í leyfi frá því snemma árs 2007.

Fréttastofa sendi öllum borgarfulltrúum tölvupóst í fyrradag þar sem þeir voru spurðir hvort þeir ætli að gefa kost á sér í kosningunum næsta vor. 13 af 15 borgarfulltrúum svöruðu fyrirspurninni og svöruðu flestir henni játandi. Bæði Sóley Tómasdóttir og Kjartan Magnússon svöruðu þó með fyrirvara og sögðust gera ráð fyrir að sækjast eftir endurkjöri.

Vilhjálmur vildi í samtali við fréttastofu ekki gefa upp hvort hann ætli að gefa kost á sér aftur. Vel gæti verið að hann væri búinn að gera upp hug sinn en hann myndi ekki upplýsa um ákvörðun sína á þessum tímapunkti. „Ég mun svara þessari spurningu þegar að því kemur."

Við þetta má bæta að fréttastofa hafði samband við Stefán Jón Hafstein sem verið hefur í leyfi frá borgarstjórn undanfarin þrjú ár. Hann sagðist síður reikna með að gefa kost á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×