Innlent

Álfyrirtæki braska með krónuna

Tvö af þremur álfyrirtækjum hérlendis stunda viðskipti með krónur á erlendum mörkuðum. Fyrirtæki sem stunda þessi viðskipti geta hagnast á misræmi milli opinbers gengis Seðlabanka Íslands og gengis krónunnar á markaði í Evrópu.

Viðskiptin gætu átt sér stað með þeim hætti að álfyrirtækin kaupi gjaldeyri á markaði í Evrópu þar sem gengi krónunnar er hagstæðara. Fyrirtækin fá með þessum hætti fleiri krónur fyrir hvern dollara í útflutningstekjur heldur en ef fyrirtækin hefðu skipt gjaldeyrinum hérlendis.

„Mörg fyrirtæki hafa undanþágur frá höftunum í samræmi við 14. gr. reglnanna. Hins vegar eru undanþágur ekki ætlaðar til að fyrirtækin hagnist vegna reglnanna," segir Svein Harald Öygard Seðlabankastjóri.

Athuga ber að fyrirtækin brjóta ekki lög með viðskiptunum þar sem þau hafa undanþágu frá gjaldeyrisreglum Seðlabankans.

Upplýsingafulltrúar Alcan á Íslandi og Alcoa segja að fyrirtækin hafi bæði varið lágu hlutfalli tekna til kaupa á íslenskum krónum erlendis.

Upplýsingafulltrúi Norðuráls segir hins vegar að öll viðskipti fyrirtækisins með íslenskar krónur hafi alla tíð farið fram á Íslandi og eingöngu í gegnum íslenska viðskiptabanka.

Hjá Alcan hefur nú verið ákveðið að breyta viðskiptaháttum með krónur. Eftir umfjöllun Fréttablaðsins um gjaldeyrisviðskipti útflutningsfyrirtækja hafði Alcan samband við Seðlabanka Íslands sem óskaði eftir því að gjaldeyrisviðskipti fyrirtækisins færu alfarið fram hérlendis.-bþa








Fleiri fréttir

Sjá meira


×