Innlent

Sumarið gaf 72 þúsund laxa

Sumarið fór langt með að gefa jafnmarga laxa veidda á stöng og metsumarið 2008.
fréttablaðið/gva
Sumarið fór langt með að gefa jafnmarga laxa veidda á stöng og metsumarið 2008. fréttablaðið/gva
Laxar veiddir á stöng sumarið 2009 voru rúmlega 72 þúsund samkvæmt bráðabirgðatölum Veiðimálastofnunar. Það er fjórtán prósentum minni veiði en metsumarið 2008 og næstmesta stangveiði sem skráð hefur verið úr íslenskum laxveiðiám. Met voru sett í nokkrum ám, þar á meðal Hrútafjarðará, Miðfjarðará, Blöndu, Fljótaá, Svalbarðsá og Kálfá. Í samanburði við árið 2008 kom fram minni stangveiði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra.

Stangveiði þeirra áa sem byggja veiði á náttúrulegum stofnum var um 53.800 laxar. Af veiði sumarsins voru um 18.500 laxar veiddir í ám þar sem meiri hluti laxastofnsins var upprunninn úr seiðasleppingum. Langflestir þessara laxa veiddust í Rangánum, um 10.700 í Ytri-Rangá og um 4.300 í Eystri-Rangá. Auk þeirra var umtalsverð veiði úr sleppingum í Norðlingafljóti, Tungufljóti í Árnessýslu, Skógá og Vatnsá.

Hafa verður í huga að inni í stangveiðitölum síðari ára er fiskur sem sleppt er og veiðist aftur. Veiðitölurnar eru því ekki fyllilega sambærilegar. Ekki er enn vitað hversu mörgum fiskum var sleppt í sumar en það hlutfall hefur hækkað og var um tuttugu prósent á árinu 2008. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×