Innlent

Smygluðu kókaínvökva frá Hondúras

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi tvo menn fyrir að smygla kókaínvökva til landsins.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi tvo menn fyrir að smygla kókaínvökva til landsins.

Tveir menn voru dæmdir í annarsvegar átján mánaða fangelsi og svo tólf mánaða fangelsi fyrir að hafa smyglað fljótandi kókaíni til landsins frá Hondúras í Suður-Ameríku. Fíkniefnalögreglan fékk fyrst pata af smyglinu þegar bandaríska fíkniefnalögreglan, DEA, hafði samband við fíkniefnalögregluna hér á landi síðasta haust. Þeim var kunngjört að rommflaska full af kókaínvökva væri á leið til Íslands með póstþjónustunni FedEx.

Þegar flaskan kom til landsins kannaði fíkniefnalögreglan innihald hennar. Í ljós kom að í flöskunni voru rúm átján hundruð grömm af kókaínvökva. Hægt var að drýgja efnið upp í rúmt hálft kíló af kókaíndufti.

Lögreglan skipti efninu út fyrir annan vökva, síðan fór lögreglumaður í dulagervi sendils til viðtakanda flöskunnar sem veitti henni viðtöku. Í kjölfarið var hann handtekinn ásamt öðrum manni.

Við yfirheyrslur kom í ljós að mennirnir höfðu ekki fengið sambærilegar sendingar áður. Í dómsorði segir að hægt sé að koma efninu í neytanlegt form með því að láta vatnið og áfengið gufa upp úr því og sía það síðan í gegnum kaffipoka með aseton. Heildarverðmæti efnisins var á bilinu 6 til 7 milljónir króna.

Báðir mennirnir sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins og dregst það frá dómi þeirra. Við húsleit fann lögreglan 11 grömm af kókaíni, rúm 4 grömm af maríjúana, MDMA og 150 millilítra af hassolíu. Öll efnin voru gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×