Íslenski boltinn

Ásmundur: Dýrt að fá á sig mörk á upphafsmínútunum

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Við fengum á okkur mörk í byrjun beggja hálfleikja og í raun var þetta aldrei leikur fyrir vikið," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir 3-0 tap liðsins gegn FH í kvöld.

„Fyrir utan það var þokkalegt jafnvægi í þessu og bæði lið að fá færi. Allt hefði getað gerst. En þegar menn koma ekki til leiks á upphafsmínútunum þá fer svona," sagði Ásmundur.

Hann telur líklegt að sínir menn hefðu ekki haft trú á að geta komið í Kaplakrikann og náð í stig. „Eitthvað er það. Við vorum að fá mjög góð tækifæri til að setja mörk en einhvernveginn voru menn samt ekki líklegir. Það getur verið ákveðin skýring."

„Við erum enn í vandræðum varnarlega en að öðru leyti er þetta þokkalegt. Það er fullt af jákvæðum hlutum sem við getum tekið úr þessum leik. Við áttum fullt af möguleikum og upphlaupum. Í stöðunni 1-0 fengum við fín tækifæri til að koma okkur inn í leikinn en það er dýrt að gefa mörk á upphafsmínútunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×