Lífið

Leitar að arftökum Quarashi

Steinar Jónsson ásamt félögum sínum Óskari Axeli Óskarssyni og Tóna í nýja hljóðverinu, Stúdíó Róm.
Steinar Jónsson ásamt félögum sínum Óskari Axeli Óskarssyni og Tóna í nýja hljóðverinu, Stúdíó Róm. MYND/fréttablaðið/anton
Athafnamaðurinn Steinar Jónsson leitar þessa dagana að arftökum rappsveitarinnar vinsælu Quarashi. Hann hefur stofnað hljóðverið Stúdíó Róm ásamt félögum sínum og vonast til lokka þangað hæfileikaríka tónlistarmenn, þar á meðal sjóðheita rappara.

„Þetta er konsept sem ég er mjög svo til í að endurnýja. Þeir sjálfir hafa sagt að það hafi engin hljómsveit komið eins og Quarashi eftir að þeir hættu, enda eru þeir með sérstakt „sánd“,“ segir hinn sautján ára gamli Steinar Jónsson sem nú leitar að hæfileikaríkum tónlistarmönnum til að prófa sig í hljóðveri hans. Steinar játar að hafa verið mikill aðdáandi þegar hann var yngri. „Ég keypti allar plöturnar þeirra en reyndar fékk ég aldrei að mæta á tónleika með þeim því ég var of ungur.“

Þrátt fyrir aldurinn hefur Steinar verið iðinn við kolann undanfarin ár. Hann hélt tónlistarhátíðina Iceland Music Festival á Tunglinu í fyrra þar sem ungar hljómsveitir fengu að spreyta sig og einnig gaf hann út fyrstu plötu rapparans Dabba T.

Í framhaldinu stofnaði hann útgáfufyrirtækið MediaStream Records og var um tíma umboðsmaður nokkurra tónlistarmanna.

Steinar ætlaði á síðasta ári að sýna söngleik byggðan á söngvamyndinni vinsælu High School Musical en hætti við á síðustu stundu. „Ég held að það sé ekki nógu stór markaður fyrir þetta á Íslandi. Það var búið að þýða söngleikinn og semja um öll leyfin en síðan gekk dæmið ekki upp,“ segir hann.

Þeir sem hafa áhuga á að reyna fyrir sér í tónlistinni með hjálp Steinars geta sent honum póst á netfangið hamraborg@mediastreamrecords.com. freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×