Innlent

Týndi símanum og sogaðist inn í sakamál

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Það getur haft óvæntar afleiðingar að týna símanum sínum, eins og Gyða Björg fékk að kynnast.
Það getur haft óvæntar afleiðingar að týna símanum sínum, eins og Gyða Björg fékk að kynnast. Mynd/Anton Brink
„Ég týndi símanum mínum í bænum. Svo fór fólk að fá einhver skringileg SMS úr símanum mínum. Á sunnudagsnóttina var síðan farið að áreita einhverja hátt setta menn," segir Gyða Björg Sigurðardóttir, tvítugur Reykvíkingur.

Hún varð fyrir því óláni að týna símanum sínum um síðustu helgi. Í vikunni fékk Gyða svo símhringingu frá lögreglunni þar sem henni var tilkynnt að hún hefði stöðu grunaðs í sakamáli eftir að síminn hennar hafði verið notaður til að hóta fólki. Hún var í kjölfarið boðuð í skýrslutöku.

„Þeir spurðu mig hvort ég væri að standa í einhverjum hótunum. Ég svaraði því neitandi og útskýrði bara hvað hafði gerst, enda nota ég ekki slíkar aðferðir til að koma skoðunum mínum á framfæri," segir Gyða.

Gyða segist ekki vita nákvæmlega hvað hinir óprúttnu aðilar sögðu í símann, en telur að hringt hafi verið í forstjóra íslenskra fyrirtækja. Hún telur að atvikið hafi greinilega blandast inn í umfangsmeiri rannsókn lögreglu. Gyða segir lögreglu þó hafa sýnt málinu skilning.

„Ég var mjög fegin hvernig þetta gekk upp. Mér var mjög brugðið þegar löggan hringdi í mig - þetta var of lygilegt til að vera satt," segir Gyða, sem nú hefur látið loka gamla símkortinu og vonar að málinu sé þar með lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×