Erlent

Laust starf hjá McDonald's í Guantanamo

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fangar í Guantanamo.
Fangar í Guantanamo.

Nú er lag fyrir þá sem vilja starfa hjá McDonald's í hlýju umhverfi en hamborgarakeðjan heimsþekkta auglýsir nú eftir starfsfólki í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu.

McDonald's auglýsir nú eftir aðstoðarframkvæmdastjóra fyrir eina útibú sitt á Kúbu en það er einmitt til húsa í hinni nafntoguðu Guantanamo-herstöð sem heimsbyggðin þekkir fyrst og fremst sem rammgerðar fangabúðir fyrir grunaða hryðjuverkamenn. Það þykir allrar athygli vert að ekki er talið upp meðal hæfisskilyrða að umsækjendur hafi svonefnda security clearance eins og það kallast upp á ensku, eða heimild til að fara um bannsvæði eða svæði þar sem ríkisleyndarmála er gætt.

Þá er nafn herstöðvarinnar, Guantanamo, hvergi að finna í auglýsingunni en aðeins talað um herstöð Bandaríkjahers á Kúbu. Fyrir utan þá fanga sem haldið er í stöðinni búa þar 6.000 manns að meðtöldum fjölskyldum hermannanna. Í auglýsingunni kemur fram að væntanlegur aðstoðarframkvæmdastjóri muni starfa á vöktum fimm daga í senn. Hann þarf að hafa reynslu af veitingarekstri og vera reiðubúinn að flytja til Kúbu. Ljóst er að margir munu að minnsta kosti uppfylla síðarnefnda skilyrðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×