Innlent

Hagsmunasamtök heimilanna styðja talsmann neytenda

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. MYND/Anton

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir eindregnum stuðningi við hugmynd talsmanns neytenda um að krefjast lögbanns á innheimtu gengistryggðra lána. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum. Þar segir að samtökin hafi áður lýst yfir stuðningi við við tillögu talsmanns neytenda um gerðardómsleið og harma að hvorki stjórnvöld né fjármálastofnanir hafi kosið að láta á hana reyna. „Með skipun gerðardóms væri hægt að gera víðtæka sátt, með aðkomu allra hlutaðeignadi aðila, í þeirri deilu sem upp er komin af völdum forsendubrests í gengis- og verðtryggðum lánasamningum neytenda," segir meðal annars.

Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna að nýlega boðaðar aðgerðir stjórnvalda séu ófullnægjandi. „Í þeim felst að greiðslubyrði lána minnkar tímabundið en þó munu lántakendur að öllum líkindum bera tjón sitt óbætt þegar upp er staðið. Samtökin lýsa yfir miklum vonbrigðum með að umrædd áform feli ekki í sér áætlun um afnám verðbreytingarákvæða í lánasamningum því með slíkri aðgerð væri hægt að koma í veg fyrir frekari eignaupptöku."

Þá er bent á að í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins segi:

„Ljóst er að með því að takmarka greiðslu skuldar á jöfnunarreikningi við 3 ár umfram upphaflegan lánstíma er verið að færa áhættu frá einstaklingum og heimilum yfir á lánveitendur. Helsti áhættuþátturinn er kaupmáttur en þróun hans þarf að vera umtalsvert lakari en eðlilegt getur talist næstu 30-40 árin svo að afskriftir lánveitenda hafi áhrif á efnahag þeirra. Ólíklegt er að sú verði raunin þar sem kaupmáttur hefur þegar rýrnað umtalsvert síðustu missirin. ... Ljóst er að með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri."

Að mati samtakanna er það óskiljanlegt með öllu að lánveitendur verði gerðir áskrifendur að hugsanlegri kaupmáttaraukningu lántakenda til frambúðar. „Slíku háttalagi mótmæla Hagsmunasamtök heimilanna harðlega og krefjast þess að almenningur njóti góðs af þeim kjarabótum sem hugsanlega ávinnast í framtíðinni. Samtökin hvetja lántakendur til að íhuga vandlega hvort þeir þurfi á greiðslujöfnun að halda þar sem ljóst er að með aðgerðinni verður kostnaður lántakans meiri. Tekið skal fram að samkvæmt frumvarpinu þarf í tilfelli verðtryggðra lána að segja sig frá greiðslujöfnun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×