Innlent

Eiga yfir höfði sér milljarða króna skattgreiðslur

Háar skattgreiðslur vofa yfir flestum stjórnendum og millistjórnendum Glitnis, Kaupþings og annarra fyrirtækja sem voru á markaði, vegna söluréttarsamninga sem gerðir voru í góðærinu. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar nemi milljörðum króna í heild, en hæstu gjöldin sem einstaklingur þarf að greiða fara yfir 300 milljónir króna.

Yfirskattanefnd úrskurðaði í upphafi árs að Þórði Má Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Straums, bæri að greiða tekjuskatt en ekki fjármagnstekjuskatt af hagnaði af söluréttarsamningi sem hann gerði við bankann. Niðurstaðan var kærð en dómur er ekki fallinn. Í stuttu máli virkuðu þessir samningar þannig að starfsmönnum gafst færi á að kaupa hlutabréf með söluréttartryggingu fyrirtækisins. Ef bréfin hækkuðu í verði gátu þeir valið að eiga bréfin eða selja þau en ef þau lækkuðu gátu þeir gengið frá samningnum sér að kostnaðarlausu. Mörg fyrirtæki sem skráð voru á markað gerðu slíka samninga, t.a.m. Glitnir, Kaupþing, Nýherji og Marel.

Á meðan ekki er komin niðurstaða í dómsmálið vinnur ríkisskattstjóri eftir úrskurði yfirskattanefndar og sendir þessa daganna út bréf til stjórnenda og millistjórnenda sem gerðu slíka samninga. Í bréfinu kemur fram að ríkisskattstjóri hyggist breyta framtölum manna, þ.e. að þeim beri að greiða 35% skatt í stað 10. Þá getur einnig bæst við 25% álag. Gert er ráð fyrir því að þetta skili milljörðum í ríkiskassann en algengt er að vantaldar tekjur séu tugir milljóna í hverju máli. Þá eru hæstu gjöldin sem einstaklingur mun þurfa að greiða yfir 300 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×